Fyrsta skref í uppbyggingu í húsnæðismálum aldraðra

Gestur og Einar tóku fyrstu skóflustungurnar á sumardaginn fyrsta. Ljósmynd/olfus.is

Á sumardaginn fyrsta  tóku þeir Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar og Einar Sigurðsson formaður öldungaráðs fyrstu skóflustunguna að fyrsta áfanga í stækkun Egilsbrautar 9 í Þorlákshöfn.

Um er að ræða byggingu á nýjum íbúðum sérhönnuðum fyrir eldri borgara. Áfanginn er fyrsta skref í uppbyggingu hvað varðar húsnæðismál aldraða en í heildina verður hægt að byggja allt að 24 hagkvæmar, 50 m2, íbúðir.

Verktakafyrirtækið Hrímgrund annast framkvæmd fyrsta áfanga og munu þær hefjast strax í næstu viku. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum fyrsta áfanga á innan við einu ári.

Að sögn Gests eru íbúðirnar rúmgóðar og fallegar en með þeim er horfið frá fyrri áformum um stök herbergi fyrir eldri borgara og þess í stað horft til þess að þeir geti haldið heimili með stuðningi svo lengi sem þeir kjósa. Samhliða hönnun þessa fyrsta áfanga var ráðist í fullnaðarhönnun á Egilsbraut 9 og því aðgengilegt að fjölga íbúðum og byggja upp stoðþjónustu í næstu skrefum.

 

Yfirlit yfir heildarframkvæmdina. Mynd/olfus.is
Fyrri greinEmil Karel og Ragnar Örn áfram í Þór
Næsta grein„Bros á hverju einasta andliti“