Fyrsta skóflustungan í Kambalandi

Þröstur Helgason tók fyrstu skólfustunguna í Kambalandi með börnum sínum, Hrannari Ara, Hrafni Helga, Guðrúnu Ragnhildi og Arneyju Björk. Ljósmynd/hveragerdi.is

Fyrsta skóflustungan í Kambalandi í Hveragerði var tekin að einbýlishúsi við Búðahraun fyrir skömmu og markar hún upphafið af nýju 1.500 manna hverfi sem mun byggjast þar upp á komandi árum.

Hugmyndina um uppbyggingu íbúðabyggðar í Kambalandi átti athafnamaðurinn Magnús Jónatansson sem keypti upp sumarbústaðalóðir sem voru á svæðinu og gerði í framhaldinu samning við Hveragerðisbæ um þjónustu samhliða uppbyggingu á Kambalandi. Árið 2019 eignaðist Hveragerðisbær lóðirnar, breytti deiliskipulagi á svæðinu og hófust framkvæmdir við fyrstu áfanga í gatnagerð það sama ár.

Skipulag Kambalands hefur tekið miklum breytingum frá fyrstu drögum og er nú gert ráð fyrir 365 íbúðum á 30,4 hektara svæði. Íbúðasvæðin verða vel afmörkuð og verður þar gott útivistarsvæði og lóðir fyrir leik- og/eða grunnskóla, verslanir og aðra þjónustustarfsemi.

Staðsetning Kambalands, ofar annarri byggð í Hveragerði, gerir að verkum að þaðan er afar fallegt útsýni og stutt í fallegar göngu- og reiðleiðir.

Fyrsta úthlutun lóða fór fram í október síðastliðnum og var þá lóðum undir 52 íbúðir úthlutað. Í dag eru þrjár lóðir lausar fyrir einbýlishús í hverfinu.

Á næstu vikum verður auglýst útboð á næstu áföngum gatnagerðar og vonast er til að næsta úthlutun lóða muni geta átt sér stað í sumar. Í þeim áfanga verða 39 íbúðir, 10 einbýlishúsalóðir við Drekahraun, og við Langahraun verður úthlutað lóðum undir þrjú þriggja íbúða raðhús og fjögur fimm íbúða fjölbýlishús.

„Það er ljóst að með upphafi framkvæmda í Kambalandi er hafinn nýr áfangi í uppbyggingu í Hveragerði. Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum og ljóst að fjölmargir hafa áhuga á búsetu í bæjarfélaginu. Í Hveragerði sameinast nálægðin við höfuðborgarsvæðið, gæði landsbyggðarinnar, einstakt fallegt umhverfi og mjög góð þjónusta við íbúa. Slíkt er eftirsóknarvert,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.

Fyrri greinHálf milljón króna í posanum eftir vaktina
Næsta greinDagur Fannar Íslandsmeistari í sjöþraut