Fyrsta skóflustungan að sex íbúða kjarna fyrir fatlað fólk

Fjóla bæjarstjóri, Pálmi og Dagmar frá Mineral og heimamaðurinn Reynir Ingólfsson tóku fyrstu skóflustunguna. Ljósmynd/Bergrisinn

Fyrsta skóflustunga að íbúðakjarna fyrir fatlað fólk við Nauthaga 2 á Selfossi var tekin í gær. Í kjölfarið var undirritaður samningur verktakans Mineral ehf og húsnæðissjálfseignarstofnunarinnar Arnardrangs.

Stjórn byggðasamlagsins Bergrisans, sem sér um þennan málaflokk á Suðurlandi, ákvað með samþykki aðildarsveitarfélaganna að stofna óhagnaðardrifið leigufélag vegna verkefnisins, Arnardrang hses, en það rekstrarfyrirkomulag miðar að sjálfbærni byggingar og reksturs húsnæðis fyrir fatlað fólk.

Frá því að málaflokkur fatlaðs fólks var fluttur frá ríki til sveitarfélaganna árið 2011 hefur ekki verið byggt húsnæði fyrir fatlað fólk í umdæmi Bergrisans. Nýjasti íbúðakjarninn í Birkimörk í Hveragerði var byggður árið 2007.

„Það er mikilvægt að fólk sem vill búa á eigin heimili geti látið þann draum rætast. Þörfin á svæðinu er mikil og því fagnaðarefni að við séum að fara af stað með byggingu sex íbúða kjarna sem mun veita sértæka þjónustu samræmi við kröfur sem gerðar eru í lögum og reglugerðum,“ segir Íris Ellertsdóttir, verkefnastjóri Bergrisans bs.

Undirbúningur þessa verkefnis hefur verið í gangi frá árinu 2018 og á endanum var ákveðið að fara í alútboð og bárust tvö tilboð í verkið. Matsnefnd um verkefnið fjallaði um tilboðin og óskaði í kjölfarið eftir samvinnu við fyrirtækið Mineral ehf og var samningur þess efnis einnig undirritaður í gær.

Miðað er við að íbúðirnar verði teknar í notkun í lok janúar árið 2024.

Dagmar Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Mineral og Fjóla St. Kristinsdóttir, stjórnarformaður Arnardrangs hses, undirrituðu samninginn. Með þeim á myndinni eru Bjarki Guðmundssson, hönnunarstjóri og Ása Valdís Árnadóttir, stjórnarmaður Arnardrangs. Ljósmynd/Bergrisinn
Fyrri greinSelfoss mætir ÍR í 16-liða úrslitum
Næsta greinFlutti búferlum til að taka við pósthúsinu á Selfossi