Fyrsta skóflustungan að nýjum sex deilda leikskóla á Selfossi

(F.v.) Þorsteinn, Arna Ír og Guðný munda skóflurnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að nýjum sex deilda leikskóla við Engjaland á Selfossi. Tilboð í byggingu leikskólans voru opnuð í morgun.

Það voru þau Arna Ír Gunnarsdóttir, formaður fræðslunefndar Árborgar, Guðný Ingibjörg Rúnarsdóttir, leikskólaráðgjafi Árborgar og Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar sem tóku fyrstu skóflustunguna.

Um er að ræða sex deilda leikskóla og er byggingin 1.112 m², ásamt þremur smáhýsum sem samtals eru um 42 m². Leikskólalóðin er 7.050 m².

„Þetta er enn eitt skefið í að bæta þjónustu við íbúastigið í sveitarfélaginu. Framkvæmdir eru hafnar og mun skólinn verða tekinn í notkun snemma árs 2021. Þetta er spennandi verkefni og það er afskaplega ánægjulegt að sjá hve nærri kostnaðaráætlun tilboð verktaka voru í verkið,“ sagði Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

Eykt átti lægsta tilboðið
Tilboð í byggingu hússins voru opnuð í morgun. Fimm tilboð bárust í verkið og voru þau öll yfir kostnaðaráætlun, sem hljóðar upp á 695,7 milljónir króna. Eykt ehf átti lægsta tilboðið, 742,3 milljónir króna, sem er 6,7% yfir áætlun.

HK verktakar ehf áttu frávikstilboð upp á 744,8 milljónir króna og annað tilboð upp á 787,7 milljónir króna. Íslenskir aðalverktakar buðu 775,6 milljónir króna og ÞG verk 799 milljónir króna.

Áður hafði Aðalleið átt lægsta boðið í jarðvinnu við leikskólann. Hún er nú hafin og á að vera lokið þann 8. febrúar næstkomandi.

Jarðvinna er hafin á nýju leikskólalóðinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinAnnasöm vika í sjúkraflutningunum
Næsta greinÞórsarar náðu sér ekki á strik eftir hlé