Fyrsta skóflustungan að nýjum leiguíbúðum

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri, Þóra Björg Ragnarsdóttir skipulags- og byggingarfulltrúi, Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, Baldur Pálsson frá Eðalbyggingum og Þröstur Bjarnason verkefnastjóri hjá Bjargi. Ljósmynd/Rangárþing eystra

Síðastliðinn föstudag var fyrsta skóflustungan tekinn að nýjum leiguíbúðum sem Bjarg íbúðafélag byggir á Hvolsvelli. Um er að ræða fjórar íbúðir í raðhúsi við Hallgerðartún.

Íbúðirnar eru rúmir 90 fermetrar í sérbýli með litlum garði og allar íbúðir með tveimur bílastæðum. Áætlað er að þær verði tilbúnar í apríl á næsta ári. Verktaki verksins er Eðalbyggingar og SG hús á Selfossi.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Bjarg kynnti hugmyndir sínar við sveitarstjórn í byrjun árs 2022 og fengu þær góðar undirtektir en Rangárþing eystra kemur að verkefninu með stofnframlagi í formi láns ásamt því að úthluta lóð fyrir verkefnið.

Opnað verður fyrir umsóknir um leiguíbúðirnar í september.

Fyrri greinHlaup hafið í Skaftá
Næsta greinVel heppnað þríþrautarmót á Selfossi