Fyrsta skóflustungan að fjórða grunnskólanum í Árborg

Fyrsta skóflustungan að Stekkjaskóla var tekin í nóvember. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að Stekkjaskóla, nýjum grunnskóla í Björkurstykki á Selfossi.

Það voru Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar Árborgar, Helga Sighvatsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga og Hilmar Björgvinsson, verðandi skólastjóri Stekkjaskóla sem tóku fyrstu skóflustungurnar.

„Þetta er stór stund, að við skulum standa hérna í dag og taka fyrstu skóflustunguna að fjórða grunnskólanum í sístækkandi sveitarfélagi. Þetta hefur verið töluvert ferli frá því að undirbúningshópur var settur á laggirnar vorið 2018 en það er mikið gleðiefni að við séum komin á þennan stað í dag,“ sagði Arna Ír að lokinni fyrstu skóflustungunni.

„Einhverjum þykir undirbúningsvinnan taka langan tíma en það skiptir máli að vanda vel það sem lengi skal standa og börnin eru mikilvægasta fólkið okkar og við eigum alltaf að leggja allt í sölurnar og vanda til allra vinnubragða þegar við erum að vinna fyrir börn. Grunnurinn, það sem við gerum í skólunum, sem ég minni á að er mikilvægasta jöfnunartækið sem við höfum í samfélaginu, það er það sem byggir framtíðina fyrir þennan hóp og gerir þau að góðum og hamingjusömum einstaklingum,“ bætti Arna Ír við.

Karína ehf í Kópavogi átti lægsta tilboðið í jarðvinnu vegna skólabyggingarinnar og mun hún hefjast á næstu dögum og á að vera lokið þann 15. janúar næstkomandi.

Fyrsti áfangi skólabyggingarinnar á að vera tilbúinn 30. júlí 2022. Um er að ræða 4.500 fermetra hús á tveimur hæðum. Í fyrsta áfanga mun skapast aðstaða fyrir 1. – 4. bekk grunnskóla, ásamt sérgreina- og frístundarými, fjölnota sal, eldhúsi og starfsmannaaðstöðu.

Heildarstærð skólans verður 11.100 fermetrar og mun hann hýsa 1. – 10. bekk grunnskóla, Tónlistarskóla Árnesinga, leikskóla og íþróttahús.

Arna Ír Gunnarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinFékk gullverðlaun fyrir að segja brandara í Pylsuvagninum
Næsta greinTokic bestur og Þorsteinn Aron efnilegastur