Fyrsta skóflustungan að eldfjallamiðstöðinni

Fyrsta skóflustungan að LAVA eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands var tekin í dag en miðstöðin verður staðsett á Hvolsvelli.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferðamálaráðherra, tóku skóflustunguna með miklum myndarbrag.

Barnakór Hvolsskóla, undir stjórn Ingibjargar Erlingsdóttur, söng tvö lög og höfðu ráðherrarnir það sérstaklega á orði hve góður flutningur kórsins var.

Ásbjörn Björgvinsson, framkvæmdastjóri LAVA, benti svo gestum á að hægt væri að sjá hvernig flötur nýju miðstöðvarinnar yrði en búið er að stika svæðið.

Verkefnið er risavaxið, en byggingin mun hýsa eldfjallamiðstöð með sýningarsölum, stóra ferðamannaverslun á alls um 350 fermetrum og veitingastað fyrir 200 manns.

Ætlað er að fjöldi fólks fái starf í setrinu og það verði mikil ferðamiðstöð fyrir svæðið. Búið er að fjármagna verkið að fullu, en verkefnið kostar vel á annan milljarð króna. Stórir fjárfestar standa að baki verkefninu, svo sem framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund, en einnig koma við sögu Norðurflug, Eimskipafélag Íslands og Kynnisferðir.

Að sögn Ásbjörns er áætlað að reisa húsið undir haust og loka því fyrir veturinn. Vetrarmánuðirnir yrðu svo notaðir í að innrétta húsnæðið.

Stefnt er að því að eldfjallasetrið verði allsherjar fræðslu- og upplifunarmiðstöð þar sem náttúra Íslands er í forgrunni með sérstaka áherslu á jarðfræði og jarðsöguna.

Fyrri greinHornafjörður vill skoða sameiningu við Skaftárhrepp
Næsta grein„Jafnara en lokatölurnar gefa til kynna“