Fyrsta rafmagnsrútan á Íslandi tekin í notkun

(F.v.) Tyrfingur Guðmundsson, framkvæmdastjóri, Sigríður Benediktsdóttir og Guðmundur Tyrfingsson, eigendur GTS ehf og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, við nýju rútuna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, vígði í dag fyrstu rafmagnsrútuna á Íslandi, um leið og GTS ehf á Selfossi kynnti stórhuga markmið í rafbílavæðingu fyrirtækisins.

Stefna fyrirtækisins er að rafmagnsvæða bílaflotann á næstu fimm árum og opna 1.440 kW hleðslustöð við höfuðstöðvar fyrirtækisins á Selfossi fyrir allt að 30 farartæki, sem verður öllum opin. Framkvæmdir eru þegar hafnar og er áætlað að hleðslustöðin verði tilbúin síðar á árinu.

Tyrfingur og Sigurður Ingi um borð í nýju rútunni sem er hin glæsilegasta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sýnir öllum öðrum að þetta er hægt
„Þetta er frábært, metnaðarfullt framtak og frumkvæði, sem er auðvitað einkennismerki þessa fyrirtækis,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við sunnlenska.is að loknum stuttum reynsluakstri á nýju rútunni. „GTS er með stórhuga áform að skipta út öllum flotanum á næstu fimm árum fyrir rafmagnsbíla og ná þar af leiðandi 100% niðurfellingu á kolefnislosun, á meðan við erum bara að stefna að 55% til ársins 2030. Þetta sýnir öllum öðrum að þetta er hægt og nútíminn er kominn, þetta er ekki framtíðin, þetta er nútíminn,“ bætti ráðherrann við.

En hvernig gengur þá uppbygging hleðslustöðva, svo hægt sé að nýta ökutæki sem þessi um allt land?

„Innviðirnir eru ekki tilbúnir, ef allir væru jafn framtakssamir og GTS þá þyrftum við virkilega að spýta í lófana. En við erum að spýta í, við erum með hugmyndir um að byggja hleðslustöðvar hringinn í kringum landið fyrir stærri tæki. Núna erum við komin með rúmlega 20 rafmagnsvörubíla til landsins og þessa rútu og vonandi munu allir sjá að þetta er hægt – og þá þurfum við bara að tryggja að innviðirnir séu til staðar svo að við getum farið hringinn,“ bætti Sigurður við en í dag eru rúmlega 3.100 hópferðabílar á landinu og losa þeir um 6% af allri kolefnislosun þjóðarinnar.

Og ráðherrann var ánægður með reynsluaksturinn: „Rútan er geggjuð, það var ljúft að keyra hana, auðvelt að stýra henni og gaman að keyra svona stórt tæki hljóðlaust.“

Sætin í rútunni eru öll með hallanlegum bökum, hliðarfærslu, fótskemlum, sætisborðum, USB tengjum fyrir alla farþega auk þess sem salernisaðstaða er í bílnum.

Leiðandi í umhverfismálum
Rútan sem um ræðir er sannkölluð lúxusrúta, 49+1 farþega hópferðabíll, sem er 422 kW og drægni bílsins er 350 til 400 kílómetrar á hverri hleðslu. Að sögn Tyrfings Guðmundssonar, framkvæmdastjóra GTS, er áætlaður akstur bílsins 60 til 100 þúsund kílómetrar á ári og því ljóst að um talsverðan sparnað í kolefnislosun sé að ræða. Þá er hún eingöngu með rafmagnshita og loftkælingu, þannig að hér er um verulega spennandi umhverfisvænan valkost að ræða.

GTS hefur nú þegar fest kaup á fleiri minni rafmagnsrútum, frá 20-35 farþega, sem verða afhentar á næstu mánuðum en fyrir á GTS ehf einn rafmagnsvagn, sem kom til landsins 2015 og hefur verið nýttur í blönduð verkefni.

„Markmið okkar er að verða áfram leiðandi í umhverfismálum og sýna fram á að rafmagnsvæðing er raunhæfur kostur fyrir hópferðafyrirtæki á Íslandi. Við stefnum á að vera leiðandi í orkuskiptum hér á landi í hópferðarekstri en GTS leggur áherslu á græna orku, minni mengun og umhverfisvænan rekstur,“ segir Tyrfingur.

Öflugasta hleðslustöð landsins
Á nýju hleðslustöðinni sem sett verður upp á Fossnesi 7, við hlið höfuðstöðva fyrirtækisins á Selfossi, verður hægt að hlaða allt að 30 bíla, stóra sem smáa og sem fyrr segir verður stöðin öllum opin en þar verða hleðslutenglar verða 90 kw, 180 kw, 300 kw og 600 kw.

„Þetta verður öflugasta hleðslustöð landsins til þessa, með hraðari hleðslu en þær sem fyrir eru. Hleðslustöðin er hönnuð af starfsmönnum YES-EU AS í Noregi og á Íslandi og sérstaklega hugsuð fyrir blandaða notkun á köldum svæðum. Á stöðinni verður hægt að forgangsraða hleðslum og stýra raforkunni með hugbúnaði til að nýta orkuna sem best,“ segir Tyrfingur ennfremur en stöðin mun opna síðar á þessu ári.

Á hleðslustöðinni verður hægt að hlaða allt að 30 bíla, stóra sem smáa og verður stöðin öllum opin. Hleðslutenglar verða 90 kw, 180 kw, 300 kw og 600 kw.
Fyrri greinMargir bílar fuku útaf í Öræfunum
Næsta greinNý stjórn hjá Framsókn í Hveragerði