Fyrsta mannvirkið úr alíslensku límtré

Farmurinn kominn á bílinn. Ljósmynd: Jóhannes H. Sigurðsson

Landsvirkjun er með í smíðum göngu- og reiðbrú yfir Þjórsá rétt fyrir ofan Þjófafoss sem tengir saman sveitarfélögin Skeiða- og Gnúpverjahrepp annars vegar og hins vegar Rangárþing ytra.

Límtré úr íslensku greni er notað í burðarvirki og gólf brúarinnar og hún er því fyrsta meiriháttar mannvirkið sem gert verður úr alíslensku límtré. Þegar smíðinni lýkur verður þessum sveitarfélögum afhent brúin til eignar.

Í frétt á vef Skógræktarinnar segir Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, að Landsvirkjun hafi staðið vel að öllu skipulagi og hönnun brúarinnar og lagt mikið upp úr því að notast yrði við umhverfisvænt byggingarefni. Fyrirtækið leitaði til Skógræktarinnar og Límtrés Vírnets til að útvega íslenskt efni til smíðinnar.

Brúin er alls 102 metra löng timburbrú með steyptum stöplum og burðarbitum úr stáli. Þar fyrir ofan koma límtrésbitar og loks tvöfalt lag af timburklæðningu í brúargólfið. Allt timburvirkið er úr íslensku sitkagreni úr Haukadalsskógi. Brúin verður göngubrú sem þó verður fær bílum í neyð. Er það hugsað sem öryggisatriði ef hamfarir verða, slys eða önnur neyðartilvik, svo að neyðarbílar komist þarna yfir.

Trausti segir óhætt að fullyrða að með þessu sé stigið stórt skref fyrir skógrækt á Íslandi. Ánægjulegt sé að sjá íslenskt timbur notað í svona stórt verkefni, timbur sem stenst vel þær kröfur sem til þess eru gerðar.

Sjá nánar á vef Skógræktarinnar

Fyrri greinJólabílabíó á sunnudaginn
Næsta greinSjö leikmenn semja við Selfoss