Fyrsta konan í formennsku hjá FBSH

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, sem haldinn var í húsi sveitarinnar í gærkvöldi. Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir er nýr formaður og er hún fyrsta konan til að gegna stöðu formanns sveitarinnar.

Farið var yfir hefðbundin aðalfundarstörf, auk þess sem kosið var í nýja stjórn og um nýjan formann samkvæmt lögum sveitarinnar.

Þrír stjórnarmenn gengu út úr stjórn að þessu sinni, en það voru þau Ingibjörg Heiðarsdóttir meðstjórnandi, Garðar Þorfinnsson gjaldkeri og Svanur Lárusson, sem lét af formennsku eftir tíu farsæl ár sem formaður.

Úrslit kosninga urðu þau að Margrét Ýrr var réttkjörin formaður ásamt tveimur nýjum stjórnarmönnunum, þeim Styrmi Grétarssyni og Elínu Stolzenwald. Auk þeirra eru í stjórninni þau Árni Kristjánsson og Marý Linda Jóhannsdóttir.

Félagsmenn þökkuðu fráfarandi stjórnarmönnum fyrir vel unnin störf og fögnuðu um leið nýrri stjórn. Aðalfundurinn var fjölmennur og óhætt er að segja að þar hafi ríkt bæði samheldni og vilji til góðra verka.