Fyrsta inflúensusmit haustsins kom frá Berlín til Selfoss

Fyrsta inflúensusmitið á landinu í haust fannst í sjúklingi á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á dögunum. Sjúklingurinn var nýkominn til landsins frá Berlín, þar sem hann hefur að öllum líkindum náð sér í smit.

Veiran reyndist vera af stofni B.

„Það kemur verulega á óvart að smit greinist svona smemma hér á landi, því enn eru fá tilfelli greind í öðrum löndum. Enn er verið að bólusetja fyrir inflúensu um allt land og hefur fólk verið hvatt að mæta í bólusetningu, enda er það besta forvörnin,“ segir í frétt á heimasíðu HSu.

Á hverju ári gengur inflúensa hér á landi og oftast mest frá desember og fram í mars. Fólk sem fær inflúensu verður skyndilega bráðveikt með háan hita, mikla beinverki og höfuðverk. Oft fylgir mikil veikindatilfinning, t.d. hrollur.

Óskar Reykdalsson, sóttvarnarlæknir Suðurlands, ritaði grein á sunnlenska.is í gær þar sem fræðast má frekar um inflúensu.

Fyrri greinKaupa sessur í skólabílana
Næsta greinOktóberfest á Gónhól í kvöld