Fyrsta barn ársins á HSu

Fyrsta barnið á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi á þessu ári var stór og myndarlegur drengur sem kom í heiminn kl. 06:36 í morgun.

Drengurinn er fjórði sonur Katrínar Hjálmarsdóttur og Svans F. Gunnarssonar í Hveragerði. Fyrir eiga þau Halldór, 22 ára, Andra 13 ára og Hjálmar 10 ára.

„Ég var skráð 4. janúar og átti alls ekki von á því að eignast fyrsta barn ársins á fæðingardeildinni á Selfossi, en það gerir þetta bara skemmtilegra,“ sagði Katrín í samtali við sunnlenska.is.

Nýársdrengurinn var 13 merkur og 53 sentimetrar og eldri bræður hans voru óskaplega sáttir við hann þó að þeim finndist hann lítill.

„Við vorum komin hingað á fæðingardeildina um klukkan tvö í nótt og þetta gekk alltsaman vel fyrir sig,“ sagði Katrín en það var Dagný Zöega sem tók á móti drengnum. „Við stefndum alltaf á að fæða hér á Selfossi enda er fæðingardeildin hér notaleg og vel hugsað um okkur,“ sagði Katrín að lokum.

Fyrri grein„Alveg að springa úr stolti“
Næsta greinRafmagn víðast komið á aftur