„Fyrst og fremst svekktur og sár“

Magnús Hlynur Hreiðarsson, fjölmiðlamaður á Selfossi, hefur látið af störfum sem ritstjóri Dagskrárinnar og DFS.is. Hann sagði upp störfum í morgun.

„Ég var kallaður á fund eigenda Prentmets og prentsmiðjustjórans á Suðurlandi í morgun þar sem mér var gert að skrifa undir samning um að ég starfaði ekki fyrir neina aðra fjölmiðla en Dagskrána og DFS. Ég yrði að hætta hjá 365 miðlum ætlaði ég að vinna áfram hjá Prentmet,“ sagði Magnús í samtali við sunnlenska.is en hann starfar einnig sem verktaki hjá 365 miðlum og flytur þar fréttir af Suðurlandi.

Magnús gat ekki fallist á afarkosti Prentmets og sagði því upp störfum á staðnum.

„Ég spurði þá hvort það væri búið að finna eftirmann minn en þeir sögðu nei, og að uppsögnin kæmi þeim algerlega í opna skjöldu. Það væri ekki búið að ræða við neinn og 100% heilindi væru bakvið þetta alltsaman,“ segir Magnús en í hádeginu var starfsmönnum Prentmets síðan tilkynnt í tölvupósti að Örn Guðnason hefði verið ráðinn ritstjóri, en hann stýrði blaðinu í sumar á meðan Magnús var í sumarleyfi. „Hvar voru heilindin?“ spyr Magnús.

„Ég er fyrst og fremst svekktur og sár út í Prentmet því ég hef lagt mig 100% fram og miklu meira en það fyrir Dagskrána síðustu tuttugu ár og fyrir DFS síðustu ár,“ sagði Magnús sem vill nota tækifærið og þakka þeim sem hann hefur verið í samskiptum við í gegnum Dagskrána síðastliðin tuttugu ár kærlega fyrir samskiptin.

„Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að senda 365 miðlum skemmtilegar og jákvæðar fréttir. Nú þarf ég að fara að líta í kringum mig eftir fastri vinnu á einhverjum virkilega góðum stað. Ég er í símaskránni, 869-3800,“ sagði Magnús léttur að lokum.

Fyrri greinTíð skemmdarverk í miðbæ Selfoss
Næsta greinFjóla Signý og Egill heiðruð