Fyrrverandi oddviti skipuleggur Thailandsferðir

Margeir Ingólfsson, fv. oddviti Bláskógabyggðar, hefur sagt starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri Bláskógaveitu eftir sjö ára starf.

Hann hyggst þó ekki sitja auðum höndum heldur hefur hann stofnað fyrirtækið IceThai Travel ehf. og hyggur á landvinninga við ferðaþjónustu.

Margeir ætlar að bjóða upp á skipulagningu ferða um Thailand og gildir þá einu hvort um er að ræða hópferðir með fararstjórn eða aðilar sem kjósa að ferðast á eigin vegum. Grunnhugmyndin er að vera með 18 daga ferðir um landið til að upplifa land og þjóð, menningu og mannlíf, auk þess sem slappað verður af á paradísareyjunni Koh Chang.

Aðspurður hvers vegna hann hafi tekið þessa ákvörðun þá segir hann að óneitanlega hafi orðið miklar breytingar á högum hans við síðustu sveitarstjórnarkosningar þegar framboðslisti hans beið lægri hlut. Staða framkvæmdastjóra við Bláskógaveitu var einungis hlutastarf og hann fór því að líta í kringum sig, hvað maður með hans reynslu og þekkingu gæti tekið sér fyrir hendur. Síðustu 10 ár hefur hann ferðast töluvert um Asíu og Thailand og þekkir því svæðið vel auk þess sem fjölskyldan hefur haft aðstöðu í Thailandi undanfarin sex ár.

Fyrirtækið verður fyrst um sinn eins manns starfsemi og hann gerir ráð fyrir að það fari rólega af stað til að byrja með. Hann er nýkominn úr ferð til Thailands þar sem hann var að skoða gististaði og semja við ferðaþjónustuaðila. Nú vinnur hann að frágangi við stofnun fyrirtækisins og vonast til þess að fyrstu ferðirnar geti hafist í janúar eða febrúar á næsta ári.