Fyrrverandi gjaldkeri BFÁ dæmdur í 12 mánaða fangelsi

Björgunarmiðstöðin á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrrverandi gjaldkeri Björgunarfélags Árborgar var dæmdur í 12 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands í morgun fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti í starfi sínu sem gjaldkeri BFÁ.

Þar af eru níu mánuðir skilorðsbundnir og falla niður ef ákærði heldur almennt skilorð.

Manninum var gert að sök að hafa dregið sér samtals rúmar 17,7 milljónir króna á árunum 2010 til 2017, að langstærstum hluta með millifærslum af reikningi BFÁ yfir á eigin reikning, en einnig með því að nota greiðslukort félagsins í eigin þágu og skrifað vörur á reikning félagsins hjá BYKO, Olís, Húsasmiðjunni og Jötunn vélum, sem síðan voru greiddir út af reikningi björgunarfélagsins.

Tapað kort í fullri notkun
Málið komst upp snemma árs 2017 þegar í ljós kom að týnt viðskiptakort björgunarfélagsins hjá N1 hafði verið notað 55 sinnum frá því að það týndist, og alltaf til að kaupa gasolíu, en björgunarfélagið notar einungis litaða olíu á sín tæki. Enginn hjá björgunarfélaginu kannaðist við notkunina en lögreglan fór yfir eftirlitsmyndavélar frá N1 á Selfossi og sást þá gjaldkerinn dæla eldsneyti á bíl sem hann hafði umráð yfir. 

Varð að spennu og fíkn
Maðurinn neitaði sök í upphafi en við aðalmeðferð málsins játaði hann marga ákæruliði. Í skýrslutökum hjá lögreglu lýsti gjaldkerinn því að hann hafi byrjað að draga sér fé um árið 2010 og þetta hafi orðið spenna og fíkn. Að öðru leiti hafði hann ekki sérstaka skýringu á fjárdrættinum. Árið 2010 hafi komið upp annað mál þar sem félagsmaður hafði misnotað olíukort félagsins. Sá hafi „sloppið vel“ og því hafi gjaldkerinn ákveðið að prófa þetta. 

Skipulögð brot um margra ára skeið
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot mannsins voru skipulögð og stóðu yfir um margra ára skeið. Maðurinn hafi brugðist trúnaði í starfi gjaldkera í félagi sem gegnir samfélagslega mikilvægu hlutverki og sé rekið í sjálfboðaliðastarfi. Einnig var litið til þess að ákærði hefði náð sáttum við björgunarfélagið og bætt fyrir brot sín, enda hafði félagið engar kröfur gert í málinu.

Auk fangelsisdómsins var ákærða gert að greiða allan sakarkostnað, tæpar 3,9 milljónir króna og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, rúmar 3,8 milljónir króna.

Fyrri greinKvöldganga í Tumastaðaskógi
Næsta greinLitháískur landsliðsmarkvörður til Selfoss