Fyrrum sambýlismaður grunaður um að hafa myrt konuna

Lögreglan á Austur-Jótlandi í Danmörku telur sig hafa fundið lík íslenskrar konu sem lýst var eftir í gær.

Víðtæk leit stóð yfir að konunni en í gærkvöldi og nótt var gerð ítarleg leit á heimili hennar. Þar fundust líkamshlutar sem höfðu verið faldir bæði úti og inni og verða þeir sendir til réttarmeinafræðings í dag til að staðfesta að um konuna sé að ræða. Stefnt er að því að ljúka rannsókn á vettvangi í dag.

Fyrrum sambýlismaður konunnar, 51 árs karlmaður, var handtekinn í gærmorgun og var hann leiddur fyrir dómara fyrir í morgun, þar sem farið var fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Maðurinn hafði samband við lögreglu í gærmorgun og tilkynnti að konunnar væri saknað en við tilkynninguna kviknaði strax grunur hjá lögreglu sem varð til þess að maðurinn var handtekinn.

Ættingjar konunnar hafa verið upplýstir um málið og veitir lögreglan ekki frekari upplýsingar. Konan er fædd árið 1977 og er frá Selfossi.