Fyrirtæki á Suðurlandi vantar starfsfólk

Sunnlensk fyrirtæki bráðvantar starfsfólk með iðn-, verk- og tæknimenntun og áhugi er á meðal stjórnenda fyrirtækja í héraðinu að taka frekari þátt í menntun starfsmanna.

Þetta er niðurstaða könnunar sem gerð var meðal fyrirtækja á Suðurlandi nýverið en niðurstöður hennar er að finna skýrslu sem gerð var af fyrirtækinu R3-ráðgjöf fyrir Fræðslunetið, SASS og Vinnumarkaðsráð Suðurlands . Niðurstöður hennar voru kynntar fyrir skömmu. Í tengslum við rannsóknarhluta könnunarinnar var rætt við um 40 einstaklinga úr ólíkum áttum atvinnulífs og fræðslustarfs á Suðurlandi.

Þar kom fram að hugsanlega vanti almennan fræðslugrunn sem fyrirtæki geta nýtt sér eða gengið að fyrir almenna starfsmenn. Atvinnulífið þarf þó að koma óskum sínum skýrar á framfæri við fræðsluaðila og fyrirtæki þurfa almennt að vera meira reiðubúin að bjóða starfsfólki að sækja námskeið í vinnutíma sínum. Á þann hátt færist fræðsla til fólksins á markvissari hátt. Einnig bárust rúmlega 1000 svör í netkönnunum meðal nemenda og foreldra sem fram fór á vegum verkefnisins. Þær kannanirnar voru sendar út með milligöngu grunnskóla og framhaldsskóla á svæðinu og eru svörin ekki persónugreinanleg. Þar kemur fram að 85 prósent framhaldsskólanema telja að auka þurfi framboð náms í verk- og tæknigreinum.

Flestir ætla að búa á Suðurlandi
Í skýrslunni kemur einnig fram að um sextíu prósent framhaldsskólanema á Suðurlandi hyggja á háskólanám að loknum framhaldsskóla en um fjörutíu prósent geta hugsað sér að fara í ýmsar greinar iðnnáms, starfsnáms eða tæknináms.

Þá sjá um sjö af hverjum tíu framhaldsskólanema fyrir sér að búa í heimabyggð sinni eða á Suðurlandi í framtíðinni en rúmlega helmingur telur sig eiga góða atvinnumöguleika þar í mörgum atvinnugreinum.

Starfamessa í mars
Í tengslum við könnunina verður efnt til svokallaðrar starfamessu þann 19. mars næstkomandi, þar sem fram fer kynning á iðn-, verk- og tæknigreinum, garðyrkju, ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinum á Suðurlandi og verður sá viðburður haldinn í húsnæði FSu á Selfossi. Þar verður jafnframt kynning á einstökum fyrirtækjum í héraðinu og námsmöguleikum í framangreindum greinum. Þangað eru boðaðir nemendur 9. og 10. bekkja grunnskóla á Suðurlandi og nemendur á 1. og 2. ári í framhaldsskólum á Suðurlandi, en samtals eru þetta um 1200 til 1300 nemendur.

Fyrri greinAuglýst eftir vitnum
Næsta greinBrynja ráðin til Kötlu jarðvangs