Fyrirlestur um áhrif jarðskjálfta á þéttbýlissvæði

Í dag kl. 13-15 mun Dr. Carlos S. Oliveira, prófessor við verkfræðideild Tækniháskólans í Lissabon í Portúgal, flytja fyrirlestur um nýjustu framfarir á sviði jarðskjálftaverkfræði í Jarðskjálftamiðstöðinni á Selfossi að Austurvegi 2.

Dr. Oliveira dvelur nú á Selfossi við Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði. Hann er einn virtasti jarðskjálftaverkfræðingur heims og var forseti Heimsráðstefnu jarðskjálftaverkfræðinga, sem er stærsta ráðstefna á fræðasviðinu og haldin á fjögurra ára fresti. Hann hefur afar yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði jarðskjálftaverkfræði, mati á jarðskjálftaáhrifum á byggingar, ásamt hættumati vegna jarðskjálfta og líkum á tjóni af þeirra völdum.

Dr. Oliveira kom til Íslands í tengslum við alþjóðlegt samstarf starfsfólks Rannsóknarmiðstöðvarinnar um uppbyggingu og þróun á rannsóknartengdu framhaldsnámi á Selfossi á sviði verkfræði og áhættustjórnunar, með áherslu á áhættugreiningu, forvarnir og viðbúnað í byggð vegna náttúruhamfara af völdum jarðskjálfta og eldgosa.

Uppbyggingin er einnig í samstarfi við Háskólafélag Suðurlands, og á meðan dvöl Dr. Oliveira stendur mun hann einnig kenna á alþjóðlegu sumarnámskeiði Rannsóknarmiðstöðvarinnar og Háskólafélagsins um jarðskjálfta og áhrif þeirra, sem hófst 30. maí og lýkur 21. júní. Einnig mun hann funda með starfsfólki Rannsóknarmiðstöðvarinnar um aukið samstarf á þessu ári og á þeim næstu.

Fyrirlestur Dr. Oliveira nefnist “Seismic Impact in Urban Areas: New Advancements”. Í fyrirlestrinum mun hann fjalla um nýjustu framfarir á sviði jarðskjálftaverkfræði sem tengjast endurbættum aðferðum við að meta heildaráhrif jarðskjálfta á þéttbýlissvæðum. Fyrirlesturinn er opinn almenningi og verður haldinn á ensku. Eftir fyrirlesturinn verða umræður um viðfangsefnið.

Dvöl Dr. Oliveira er að hluta til fjármögnuð af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga sem styrkir þróun og uppbyggingu Rannsóknarmiðstöðvarinnar á rannsóknartengdu framhaldsnámi á Selfossi með styrk úr Vaxtarsamningi Suðurlands árið 2013. Dvöl Dr. Oliveira er einnig fjármögnuð af Evrópuverkefninu “UPStrat-MAFA” sem starfsfólk Rannsóknarmiðstöðvarinnar tekur þátt í í samstarfi við fjölda erlendra rannsóknarstofnana og háskóla, m.a. Tækniháskólann í Lissabon.

Fyrri greinKristinn sigraði á vormótinu
Næsta greinTillögur í hönnunarsamkeppni til sýnis