Fylgst með neysluvatnsgæðum

Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafa verið á ferðinni á öskufallssvæðum að undanförnu til að mæla sýrustig og leiðni í vatnsveitum á svæðinu. Þar hefur allt komið vel út miðað við aðstæður.

Mælingar hafa verið gerðar á u.þ.b. 65 vatnsveitum eða einkavatnsbólum á svæðinu undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Skaftárhreppi. Hafa allar þessar mælingar verið innan viðmiðunarmarka neysluvatnsreglugerðar.

Ennfremur hafa verið gerðar flúoríðmælingar, bæði af yfirborðsvatni, drykkjarvatni skepna og neysluvatni. Í fimm sýnum af 21 mældist flúoríð, þó allt undir viðmiðunarmörkum.

Mælingar sem gerðar hafa verið á yfirborðsvatni benda jafnframt til þess að öskufallið hafi ekki haft afdrífarík áhrif á það.

Heilbrigðiseftirlitið mun áfram fylgjast með gæðum neysluvatns á svæðinu.