Fúskarar ógna starfi faglærðra

Berglind Hafsteinsdóttir, bólstrari á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Mikil gróska er í Félagi húsgagnabólstrara á Íslandi en félagið fagnar 100 ára afmæli eftir þrjú ár. Formaður félagsins er Berglind Hafsteinsdóttir, bólstrari á Selfossi, en hún rekur fyrirtækið Bólsturlist við góðan orðstír.

Berglind hefur áhyggjur af stöðu faglærðra húsgagnabólstrara á Íslandi en ófaglærðir hafa í auknum mæli tekið að sér að bólstra húsgögn fyrir fólk gegn greiðslu.

„Töluvert hefur borið á því að ófaglærðir séu að auglýsa bólstrun og taka að sér verkefni gegn greiðslu. Húsgagnabólstrun er löggilt iðngrein og því er það brot á lögum að ófaglærðir auglýsi og taki að sér slík verkefni,“ segir Berglind í samtali við sunnlenska.is.

Mikilvægt að styðja við íslenska framleiðslu
Berglind hvetur einstaklinga og fyrirtæki til þess að versla við löggilta fagmenn, hvort sem það er í húsgagnabólstrun eða öðrum iðngreinum. „Það er mikilvægt að kynna sér vel bakgrunn og menntun iðnaðarmanna áður en slíkur einstaklingur er ráðinn til vinnu. Sérstaklega vil ég leggja áherslu á mína iðngrein, húsgagnabólstrun, er löggilt iðngrein sem margra ára nám liggur á bak við.“

„Það skiptir máli að við veljum faglærða aðila, ekki bara til að tryggja vandað verk, heldur líka til að styðja við atvinnulíf, iðngreinar og handverk sem byggir á sérhæfðri þekkingu, metnaði og reynslu.“

„Með því að versla á Íslandi og í heimabyggð styðjum við íslenska framleiðslu, leggjum okkar af mörkum við að byggja upp sterkari og sjálfbærari samfélög um allt land og tryggjum að fagmennska og handverk haldi áfram að dafna.“

Oftar en ekki þarf að taka allt í gegn þegar húsgögn eru gerð upp. Hér má sjá fyrir og eftir mynd af stól sem Berglind bólstraði upp á nýtt. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir

Bólstrun er list
Segja má að Berglind hafi húsgagnabólstrun í blóðinu en faðir hennar er Hafsteinn Sigurbjarnarson bólstrari. Hún byrjaði að læra hjá honum árið 1997 og útskrifaðist frá hinum virta iðnskóla Skive Tekniske Skole í Danmörku fjórum árum síðar. Hún stofnaði svo sitt eigið fyrirtæki árið 2008.

Þess má geta að í dag er hægt að læra húsgagnabólstrun í Tækniskólanum í Reykjavík en nemendur þurfa þó alltaf einnig að fara út til Danmerkur í Skive Tekniske Skole. Að auki þarf að komast á samning hjá meistara til að ljúka náminu. Sum sé, það liggur mikið nám á bak við hvern löggiltan bólstrara.

„Bólstrun er nákvæmt handverk og í raun list að mínu mati enda var ég ekki lengi að finna nafn á fyrirtækið mitt sem ég stofnaði árið 2008 og nefndi það „Bólsturlist“. Mér finnst það lýsa vel fagmennskunni og ástríðunni sem býr að baki þessu flotta handverki,“ segir Berglind en á Facebook og Instagramsíðum Bólsturlistar er hægt að skoða fyrir-og-eftir myndir, sem og vinnsluferilsmyndir.

„Löggiltir bólstrarar hafa lokið viðurkenndu námi og standast reglubundið mat á hæfni sinni. Þeir starfa samkvæmt lögum og reglum, bera ábyrgð á sinni vinnu og bjóða upp á traust úrræði ef upp koma vandamál eða gallar. Með því að velja faglærðan iðnaðarmann tryggir þú að verkin verði rétt framkvæmd og gæði, ending og öryggi séu í fyrirrúmi.“

Gömul húsgögn hafa oft mikið tilfinningalegt gildi og þá er mikilvægt að sá sem bólstrar kunni til verka og geri hlutina vel. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir

Ófaglærðir og réttindalausir vaxandi vandamál
Berglind segir það vera vaxandi vandamál hversu margir réttindalausir aðilar séu að starfa í iðngreinum. Verkin séu oft illa unninn og bera þess merki að hafa verið unnin af fúskúrum.
„Þessir aðilar eru að auglýsa þjónustu sína opinberlega, meðal annars á samfélagsmiðlum. Þetta dregur úr virðingu sveinsprófsins, minnkar traust almennings og setur gæði og öryggi í hættu.“

„Íslensk lög gera kröfu um að einstaklingar sem starfa í löggiltum iðngreinum hafi lokið viðurkenndu námi og hlotið sveinspróf. Þessi krafa tryggir faglega þekkingu, ábyrgð og öryggi fyrir neytendur.“

Ekki bara eftirlit lögreglu
Berglind kallar eftir auknu eftirliti með greininni. „Félag bólstrara í samstarfi við Samtök iðnaðarins og aðrar löggiltar iðngreinar hefur ítrekað kallað eftir skipulögðu og samhæfðu opinberu eftirliti með þeim sem starfa án lögboðinna réttinda og menntunar.“

„Slíkt eftirlit má ekki eingöngu hvíla á lögreglunni, eins og það hefur gert síðastliðin ár, heldur þarf að vera samvinna við aðrar eftirlitsstofnanir, svo sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Neytendastofu og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Þessar stofnanir eiga að tryggja að lög og reglur séu virt og að viðeigandi viðurlögum sé beitt gegn þeim sem vinna verk án nauðsynlegrar þekkingar og ábyrgðar.“

„Málið er enn í vinnslu en það er mikilvægt að almenningur sé meðvitaður um þennan vanda og taki meðvitaða ákvörðun um að velja einungis löggilta fagmenn til að tryggja gæði og öryggi í þjónustu.“

Titlar á já.is villa um fyrir fólki
Hjá þjónustufyrirtækinu já.is getur fólk titlað sig hvað sem er án þess að hafa menntunina til þess. Gildir einu hvort fólk titlar sig sem byggingarverkfræðing eða bólstrara – fólk getur skráð á sig starfstitil þó að það hafi ekki lært iðnina. Berglind hvetur fólk til að taka þessum merkingum með varúð.

„Undafarna mánuði hefur ja.is verið í auglýsingarherferð og auglýsa það að þú finnir ákveðið marga bólstrara inni á síðunni sinni. Ég verð að viðurkenna að mér þykir alveg magnað að hver sem er geti titlað sig „bólstrara“ eða í raun bara hvað sem er. Margir auglýsa þjónustu í iðnaði án þess að hafa tilskylda menntun né hæfni til. Þetta veldur ruglingi meðal neytenda, dregur úr trausti á iðngreinum og grefur undan stöðu þeirra sem hafa lokið löngu og krefjandi námi í faginu.“

Á Facebook og Instragram síðum Bólsturlistar má finna fleiri fyrir og eftir myndir af húsgögnum sem Berglind hefur gert upp. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir

Réttinda- og leyfislausir óheimilt að taka við greiðslu
Berglindi er annt um starfsgrein sína og þykir miður hversu margir titla sig sem bólstrara en eru það í raun ekki. „Það er engin trygging fyrir því að þeir sem þar skrá sig undir því starfsheiti hafi nokkur réttindi eða menntun. Starfsheitið á ekki að vera notað af hverjum sem er. Það getur vel verið að fólk átti sig ekki á því að samkvæmt lögum mátt þú ekki taka að þér iðngrein gegn greiðslu, sem er löggild án þess að vera með tilskyld leyfi og réttindi.“

„Þegar fólk skráir sig sem bólstrara, smið, pípara eða annað og er án réttinda þá er beinlínis verið að villa um fyrir neytendum. Það dregur úr virðingu iðngreinanna, skaðar traust á iðnaðargeiranum og setur bæði gæði og öryggi í hættu. Það er þó á ábyrgð okkar allra, sem neytendur og samfélag, að kynna okkur hverjir eru löggiltir fagmenn og velja einungis þá sem hafa tilskilin réttindi og menntun,“ segir Berglind að lokum.

Berglind ásamt Huldu Dröfn Atladóttur, fatahönnuði. Hulda aðstoðar Berglindi við saumaskapinn í Bólsturlist. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinHSK/Selfoss bikarmeistari í stúlknaflokki
Næsta greinGestirnir jöfnuðu á lokamínútunni