Furðudýr á Kötlugrunni

Furðudýr á Kötlugrunni. Dýrið er um 10 sm í þvermál.  Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

Leiðangursfólk Hafrannsóknarstofnunar á leiðangursskipinu Bjarna Sæmundssyni fann nýtt og óþekkt dýr á Kötlugrunni þegar lífríki hafsbotnsins við Ísland var kannað í lok júní og byrjun júlí.

Ýmislegt áhugavert kom fram á neðansjávarmyndum í leiðangrinum en á Kötlugrunni sá leiðangursfólkið dýr sem ekki hefur sést áður og ekki hefur tekist að finna út hvaða dýr þetta er í raun. 

Liturinn er ljósfjólublár og dýrið er með tvær raðir af öngum og ferkantaðan fót. Það eru þekktar yfir 3.000 tegundir af botndýrum í kringum Ísland en aðeins hluti þeirra hefur verið myndaður hingað til. Hvort þetta dýr tilheyri einhverri af þessum þekktu tegundum eða hvort um nýja tegund sé að ræða við Ísland er ekki vitað.

Fróðleg samantekt um leiðangurinn er á heimasíðu Hafrannsóknarstofnunar.

Þar kemur meðal annars fram að á landgrunnsbrúninni eftir suðurströndinni var mest leirkenndur sandbotn með fremur lítinn fjölbreytileika tegunda ofan á botninum. Þar sem botninn var harðari eða ef grjót var á botninum jókst tegundafjöldinn. Leiðangursfólki fannst ánægjulegt að sjá að á nokkrum stöðum í bröttum landgrunnskantinum voru lifandi kóralrif og á öðrum stöðum voru akrar af sæfjöðrum. Þessi svæði eru utan við veiðislóð enda í bröttum kantinum. Ofan á kantinum voru hins vegar dauð kóralrif enda er veiðiálag þar mikið og kóralrifin sem einu sinni voru þar hafa horfið.

Akur af sæfjöðrum á 570 m dýpi. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun
Fyrri greinUppfært: Julian Carl fundinn
Næsta greinAlli Murphy í Selfoss