Furðar sig á lækkun hámarkshraða á Langholtsvegi

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps furðar sig á því að hámarkshraði á nýjum hluta Langholtsvegar verði 70 km/klst og krefst þess að Vegagerðin bregðist tafarlaust við og hækki hámarkshraðann upp í 90 km/klst.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar voru kynntar upplýsingar frá Vegagerðinni þar sem fram kemur að vegna hönnunar á þeim hluta Langholtsvegar sem verið er að leggja bundið slitlag á, frá Flúðum, sé lagt til að hámarkshraði á þeim hluta vegarins verði aðeins 70km/klst.

Sveitarstjórn lýsir furðu sinni á því að við hönnun nýs vegar með bundnu slitlagi sem taki við eldri malarvegi eigi hámarkshraði vegarins að lækka.

„Að mati sveitarstjórnar er það lágmarkskrafa við hönnun vega með eins mikinn umferðarþunga eins og er á Langholtsvegi að vegurinn þoli hámarkshraða upp að 90 km/klst í samræmi við aðra vegi í sveitarfélaginu með bundnu slitlagi,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn krefst þess að Vegagerðin bregðist tafarlaust við með þeim hætti að vegurinn verði með 90 km/klst.

Fyrri greinÓkeypis námsgögn í Ölfusi
Næsta grein„Við vorum mjög óheppnir í kvöld“