Furða sig á breytingum á rammaáætlun

Hreppsráð Rangárþings ytra lýsir mikilli furðu og vonbrigðum með hugsanlegar breytingar á rammaáætlun vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár.

Nokkur umræða hefur verið um það í fjölmiðlum síðustu daga að ríkisstjórnin ætli að beita sér í því að gera verulegar breytingar á flokkun virkjanakosta og færa virkjanakosti í neðri hluta Þjórsár úr nýtingarflokki í biðflokk.

Hreppsráð Rangárþings ytra lýsir yfir mikilli furðu og vonbrigðum með hugsanlegar breytingar á rammaáætlun vegna virkjana. “Sú óvissa sem þessar umræður hafa fyrir fyrir samfélagið og fyrirhugaða uppbyggingu, sem tengist virkjunum, er algerlega óásættanleg í því árferði sem við búum við á þessum tímum,” segir í bókun hreppsráðs.

Hreppsráð skorar á stjórnvöld að rammaáætlun verði tekin alvarlega og treyst verði á að fagleg sjónarmið verði látin ráða för í ákvarðanatöku Alþingis.