Fundust hátt uppi í Ketillaugarfjalli

Frá björgunaraðgerðunum í dag. Ljósmynd/Björgunarfélag Hornafjarðar

Í dag barst hjálparbeiðni frá tveimur hollenskum ferðamönnum sem höfðu lagt í göngu á Ketillaugarfjall, sem er upp af Nesjum, rétt utan Hafnar í Hornafirði.

Þeir höfðu lagt bíl sínum við söluskálann í Nesjum og gengið þaðan, sem gerði björgunarfólki aðeins erfiðara með staðsetningu þar sem ekki lá ljóst fyrir hvaða leið mennirnir hefðu farið á fjallið, en þeir fóru ekki hefðbundna gönguleið. Þegar þeir voru komnir nokkuð hátt í fjallið, gengu þeir inn á svæði þar sem harður snjór og svellalög voru, og þeir treystu sér ekki lengra og óskuðu aðstoðar.

Björgunarsveitarfólk frá Höfn fór á staðinn og hélt á fjallið, en í fyrstu var staðsetning mannanna ekki nákvæm.

Mennirnir fundust svo hátt í fjallinu rétt fyrir klukkan 17. Björgunarfólk setti á þá mannbrodda, tryggði þá í línu og fylgdi niður af fjallinu. Mennirnir voru vel á sig komnir, en ekki nógu vel búnir til vetrar fjallaferða. Aðgerðum var lokið rétt fyrir klukkan 18:00.

Fyrri greinSnjóflóðahætta að Fjallabaki
Næsta greinHamarsmenn áfram taplausir