Funduðu um samfélagsmál með forsætisráðherra

Katrín ásamt þeim Amelíu og Kristínu. Ljósmynd/Facebook

Amelía Rán Bjarkadóttir og Kristín Guðmundardóttir, nemendur í 7. bekk í Sunnulækjarskóla á Selfossi, heimsóttu Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra á skrifstofu hennar í dag.

Katrín greinir frá heimsókninni á Facebooksíðu sinni.

„Sameiginlegur áhugi á samfélagsmálum varð hvati að því að skrifa forsætisráðherra bréf og óska eftir fundi. Þær ræddu umhverfismál og skólamál og spurðu ráðherra um alls kyns hluti, frá því hver hennar menntun væri, út í afstöðu til jólasveina og uppáhaldskonfektmola,“ segir í færslu ráðherra.

Í 7. bekk Sunnulækjarskóla er nú unnið að verkefninu Reyklaus bekkur og spurðu stúlkurnar að sjálfsögðu út í afstöðu forsætisráðherra um reykingar, sem hvatti þær og allan bekkinn til að byrja aldrei að reykja.

Þær Kristín og Amelía komu líka færandi hendi með gjöf frá Selfossi, þar sem finna mátti glaðning frá Kaffi Krús, Sundhöll Selfoss, Pylsuvagninum og Sjafnarblómum.

Fyrri greinRochford með þrefalda tvennu í tapleik
Næsta greinGul viðvörun: Stormur og snjókoma syðst