Fundu meira heimabrugg

Lögreglan á Selfossi upprætti aðra ólöglega áfengisframleiðslu síðdegis í dag á Selfossi. Þar var lagt hald á 150 lítra af gambra og 24 lítra af landa.

Þetta er önnur húsleitin í dag sem skilar sér í fundi ólöglegs áfengis því fyrr fundust um 400 lítrar af gambra og 14 lítrar af landa á Stokkseyri. Lögreglan á Selfossi hefur því alls lagt hald á 550 lítra af gambra og 38 lítra af landa í dag.

Farið var í húsleitirnar vegna gruns um að framleiðsla ólöglegs áfengis hafi farið þar fram og reyndist grunurinn á rökum reistur.

Í kjölfarið verða sýni tekin af áfenginu og þau send til rannsóknar. Að rannsókn lokinni verður málið sent ákæruvaldinu til ákvörðunar um framhaldið.