Fundað um framtíðarskipulag Versló á Flúðum

Mikill erill var í kring um viðburði á Flúðum um verslunarmannahelgina en eins og svo oft áður þá beindist þörfin fyrir löggæslu ekki síður að fulltíða einstaklingum sem þar voru, á meðan yngri kynslóðin skemmti sér vel.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að í gær funduðu fulltrúar þeirra sem komu að gæslu og sjúkragæslu á Flúðum um helgina með sveitarstjóra Hrunamannahrepps. Á fundinum var farið yfir reynslu helgarinnar og verður niðurstaða þess fundar veganesti inn í framtíðina þegar kemur að skipulagi í kring um komandi verslunarmannahelgar.

Að sögn lögreglu gekk verslunarmannahelgin vel fyrir sig að mestu leiti þó fjöldi ölvaðra ökumanna skyggi nokkuð á í þeim efnum. Sjö gistu fangageymslur á Selfossi vegna ölvunarástands án þess þó að brot þeirra væru alvarleg.