Fulltrúi K-lista ekki boðaður á kjörstjórnarfund

K-listinn í Grímsnes- og Grafningshreppi hefur farið fram á að fundur um móttöku kjörgagna í sveitarfélaginu verði boðaður að nýju þar sem fulltrúi K-listans var ekki boðaður á fundinn.

Í dag rann út frestur til að skila inn kjörgögnum fyrir framboðslista og skilaði K-listinn inn gögnum á tilsettum tíma. Fulltrúi listans í kjörstjórn var hins vegar ekki boðaður á fund kjörstjórnar og var kjörstjórn því aðeins skipuð tveimur fulltrúum sem báðir voru tilnefndir af C lista.

„Þessi vinnubrögð eru ámælisverð. Það þarf að vera tryggt að farið sé að lögum, að faglega sé starfað og að störf kjörstjórnar séu hafin yfir allan vafa,“ sagði Guðmundur Ármann Pétursson, oddviti K-listans í samtali við sunnlenska.is.

K-listinn hefur gert þá kröfu að fundur kjörstjórnar verði boðaður að nýju og til hans kvaddir allir þeir þrír fulltrúar sem sæti eiga í kjörstjórn. Listinn hefur fengið Atla Gíslason, hæstaréttarlögmann, til að gæta hagsmuna listans við framkvæmd kosninganna.