Fulltrúar Vegagerðarinnar heimsóttu Bláskógabyggð

Ljósmynd/Bláskógabyggð

Fulltrúar Vegagerðarinnar heimsóttu Bláskógabyggð í síðustu viku. Fulltrúar Vegagerðarinnar voru Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri, Svanur Bjarnason, svæðisstjóri, og Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs en á móti þeim tóku Helgi Kjartansson, oddviti, Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri, og Kristófer A. Tómasson, sviðsstjóri.

Hópurinn skoðaði aðstæður við gömlu brúna yfir Tungufljót, auk þess sem Einholtsvegur var ekinn og síðan fundað í Torfhúsunum á Einholtsmelum.

Sérstaklega var rætt um viðhald stofnvega og ástand tengivega, þar á meðal Einholtsvegar, og áhersla lögð á að hann verði byggður upp og lagður slitlagi. Auk þess var rætt um nauðsyn þess að bæta vetrarþjónustu og laga hana að þeirri miklu umferð sem er á mörgum stofnleiðum innan sveitarfélagsins, td. á Skálholtsvegi.

Á fundinum hvöttu fulltrúar Bláskógabyggðar Vegagerðina til þess að hefja vinnu við umhverfismat, sem er forsenda fyrir endurbótum á Kjalvegi og færslu vegarins suðurfyrir Geysi.

Ólafur Guðmundsson kynnti úttekt á ástandi vega í Bláskógabyggð en með auknum straumi ferðamanna eykst álag á vegi innan sveitarfélagsins sem liggja að fjölsóttum ferðamannastöðum og er nauðsynlegt að huga áfram að styrkingu þeirra vega.

Fyrri greinHellabíó í Raufarhólshelli
Næsta greinHafa áhyggjur af lyfjaafgreiðslu í Laugarási