Fullt í nám í grunndeild ferða- og matvælagreina

Innritun fyrir haustönn 2014 er lokið í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Um 960 nemendur eru nú skráðir til náms á haustönn og góð aðsókn er í nám í verklegum greinum.

Enn er hægt að bæta við nemendum í húsasmíði og grunndeild rafiðna en fullt er í nám í grunndeild ferða- og matvælagreina, sem er ný námsbraut við skólann.

Fimmtán nemendur verða í grunndeild ferða- og matvælagreina og sagði Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari, í samtali við sunnlenska.is að það væri algjört hámark miðað við aðstöðu í húsinu og reglur um verklega hópa. „Við erum mjög spennt fyrir að bjóða þetta nám og vonum að þetta sé bara byrjunin,“ sagði Olga Lísa.

Fyrri greinHundrað manns leita í Fljótshlíðinni
Næsta greinSelfoss gerði jafntefli við toppliðið