Fullorðnir skátar lykillinn að öflugu skátafélagi

Á dögunum luku þær Inga Úlfsdóttir og Steinunn Alda Guðmundsdóttir sérstöku Gilwell-skáta námskeiði sem haldið er á vegum Bandalags Íslenskra skáta.

Báðar eru þær búsettar á Selfossi en Inga vinnur hjá Námsgagnastofnunn en Steinunn er kennari í Sunnulækjarskóla. Inga og Steinunn eiga báðar börn sem eru skátar og sáu að þau fengu mikið út úr skátastarfinu. Steinunn hafði verið í skátunum sem barn og vissi því aðeins um hvað málið snérist.

Áhersla á leiðtogaþjálfun
Eftir að hafa starfað með skátafélaginu Fossbúum í nokkur ár og fengið nasasjón af starfinu var þeim Ingu og Steinunni bent á að þær gætu farið á það sem kallast Gilwell-námskeið. Inga segir að Gilwell hafa tekið breytingum frá fyrri tíð og henti núna fólki sem ekki hafi bakgrunn í skátunum.

„Áherslan er á leiðtogaþjálfunina sem nýtist jafnt utan skátastarfsins sem innan,” segir Inga sem segir að þær hafi ákveðið að fara sveitaforingjaleiðina í gegnum námskeiðið en flestir sem voru með þeim lögðu áherslu á stjórnun.

Þurftu að takast á við fjölbreytt verkefni
Steinunn segir að námskeiðið hafi fyrst og fremst verið kynning á skátastarfinu og hugmyndafræðinnni sem það byggir á. „Auk þess þurftum við að leysa ýmis verkefni, bæðu verklega og í umræðuhópum. Við fengum að kynnast hefðbundnum skátaverkefnum sem og stjórnun slíkra verkefna. Lokaverkefni okkar fjallaði um það hvernig það væri að koma fullorðin inn í skátana og hvaða áhrif það hafði á líf okkar,” segir Steinunn.

Niðurstaðan sem kom út úr því verkefni var að Gillwell hafi auðveldað fullorðnum að koma inn í skátastarfið og að áhrifin fælust meðal annars í auknu áræði til verka. „Við erum óhræddari en áður að takast á við ný verkefni og stíga út fyrir þægindarammann.”

Skátastarf er fyrir alla
Þær Inga og Steinunn segja að skátastarfið sé gefandi en umfram allt skemmtilegt. Og að enginn vafi leiki á því að skátastarf sé fyrir alla vegna þess hver fjölbreytt það er.

„Þú færð að njóta þín á þínum forsendum. Skátarnir eru fyrst og fremst uppeldishreyfing sem hefur það að markmiði að gera börn sjálfstæð og óhrædd að takast á við það sem að höndum ber,” segir Inga og Steinunn tekur við: „Skátastarf er ekki að binda hnúta, tjalda, grilla sykurpúða og syngja skátasöngva, heldur eru þetta leiðir að því að gera einstaklinginn sjálfstæðan, ábyrgan og virkan í eigin lífi og þroska. Skátastarfið felst í því að vinna að þessum markmiðum. Skátarnir leggja til ævintýrið. Þeir sem hafa upplifað skátamót vita um hvað við erum að tala.”