Fuglar dreifa rusli í þjóðgarðinum

„Þetta er óþolandi ástand,“ segir Þóra Einarsdóttir í Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum, en sumarhúsa-eigendur og fleiri hafa orðið uppvísir að því að henda sorpi við sorpgáma þar og víðar í Bláskógabyggð.

Svo virðist sem að almennt skeytingarleysi um sorpfrágang og óánægja sumarhúsaeigenda með aðstæður til losunar sorps séu hér valdandi. Þóra leigir gám sem er geymdur læstur fyrir aftan Söluskálann en þrátt fyrir það hefur hann verið spenntur upp og rusli troðið í hann.

Segir hún óhemju vinnu fara í að tína upp ruslapoka sem hent hefur verið fyrir utan gáminn. Fuglar komist í ruslið og dreifi því um nágrennið. „Þetta er mikill kostnaður fyrir okkur og tímafrekt,“ segir Þóra og er ósátt við að borga fyrir ruslahirðingu annarra.

Hún segist hafa staðið sumarhúsaeigendur úr Laugardal og Biskupstungum að verki. Ástandið sé þó verra á veturna því á sumrin komist sorpeigendurnir í ólæsta gáma á tjaldsvæðunum á Þingvöllum.

Gylfi Haraldsson, læknir við Heilsugæslustöðina í Laugarási, og Bjarni Kristinsson, verslunareigandi í Bjarnabúð í Reykholti, staðfesta orð Þóru og segja töluvert um að sorpi sé hent í vandlega merkta gáma sem þeir hafa á leigu og valdi þeim aukakostnaði.

Hóta að kæra sorpeigendur
Viðmælendur Sunnlenska töldu ástandið hafa versnað eftir að umdeildar breytingar á staðsetningu og opnun gámastöðva tóku gildi í Bláskógabyggð. Hafa starfsmenn Bjarnabúðar neyðst til að hóta að kæra viðkomandi aðila eða jafnvel orðið að hringja í lögregluna til að losna við utanaðkomandi sorp.

Ruslalosunin skánaði eitthvað eftir að sett var upp lúga á læst gámasvæði sveitarfélagsins þar sem hægt var að henda sorpi allan sólarhringinn. Þetta dugar þó ekki til og sagði Bjarni að þótt gámasvæðið væri í einungis nokkur hundruð metra fjarlægð frá verslun hans þá væru aðilar ennþá að henda alls konar sorpi í ruslagáma hans. Svo virtist sem bæta þyrfti upplýsingar um hvar hægt sé að losa sig við rusl. Nefndi Bjarni að ekki væru merkingar við gámasvæðið og að í sumum sumarbústöðum væru enn gamlar upplýsingar um að hægt væri að losa sorp við verslunina.

Fyrri greinLandeyjahöfn hugsanlega lokuð í vetur
Næsta greinSóttu fasta ferðamenn