„Fuglaplágan setur allt í rúst“

Kornrækt á Suðurlandi hefur dregist saman, sem og annars staðar á landinu og má rekja það að stórum hluta til þess hversu aðgangshörð gæs og álft getur verið á kornökrum.

Á ráðstefnu um málið nýverið kom fram að kornrækt hafi dregist saman um tæpa 500 hektara á Suðurlandi.

„Þetta allt er mikið áhyggjuefni og mjög slæmt fyrir þjóðarbúið ef kornræktin dregst saman,“ segir Kristján Bjarndal Jónsson, jarðræktarráðunautur hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, í samtali við Sunnlenska.

Til að koma í veg fyrir skemmdir af völdum álfta og gæsa verður að bregðast við með fljótsprottnu afbrigði og bættri þurrkaðstöðu.

„Þurrkunin er mesti flöskuhálsinn í dag, því með aukinni þurrkun á korni gætu kornbændur verið með umframræktun, þ.e. meira af fljótsprottnum afbrigðum og verið búnir að ná því áður en fuglaplágan setur allt í rúst að haustinu,“ segir Kristján.

Kristján segir enga lausn í sjónmáli. „Vargurinn velur eingöngu bestu staðina fyrst og ef það tekst að koma honum úr ökrum hjá einum bónda, þá er komið upp vandamál í næstbesta akrinum og þannig verður það koll af kolli. Við rekum fuglinn ekki úr landi. Það mætti prófa að halda fuglinum frá ökrum með því að koma upp griðlandi fyrir hann með góðum ökrum sem væri fórnað í beit og traðk,“ segir Kristján. Samhliða því yrðu varðmenn að hrekja fuglinn af ræktarökrum og jafnframt gæta þess með eftirliti að ekkert ónæði yrði í friðlandinu af mannavöldum.

Fyrri greinEinar Árni tekur við Þórsurum
Næsta greinStórfelld skemmdarverk unnin í Gagnheiðinni