Fuglafriðland á Dyrhólaey: Vettvangur réttarbrota eða endurreisnar hnignandi lífríkis?

Vegna umræðu að undanförnu um málefni Dyrhólaeyjar í fjölmiðlum og á Alþingi vilja ábúendur á eignarjörðum Dyrhólaeyjar koma eftirfarandi á framfæri.

Dyrhólaey er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Að frumkvæði heimamanna var Dyrhólaey friðlýst árið 1978 og hafa ábúendur á eignarjörðum eynnar jafnan síðan annast umhirðu hennar, nær alfarið á eigin kostnað, en í samráði við Umhverfisstofnun. Dyrhólaey var einkum friðlýst vegna fuglalífsins, en viðurkennt er að það hefur látið stórlega á sjá á undanförnum árum. Megin orsök þess er gríðarlegt álag af völdum stjórnlausrar umferðar ökutækja og ferðamanna, en Dyrhólaey er aðeins 1,5 ferkílómeter að flatarmáli og lífríki hennar er mjög viðkvæmt. Lengst af var Dyrhólaey jafnan lokuð fyrir umferð á varptíma 1. maí til 25. júní, en því miður hefur Umhverfisstofnun látið undan þrýstingi sérhagsmuna á síðustu árum með því að opna eyna á miðjum varptíma, með þeim afleiðingum að æðarvarp og annað fuglalíf er nú ekki svipur hjá sjón. Þó kveður friðlýsing Dyrhólaeyjar á um að ekki megi skaða eða trufla fuglalíf í eynni.

Ábúendur hafa að undanförnu beitt sér fyrir því að tekin verði upp breytt stýring umferðar inn á friðlandið í þeim tilgangi að vernda land og lífríki eynnar, endurreisa fuglalíf hennar og tryggja að ferðamenn geti notið náttúru staðarins til langrar framtíðar. Slíkum hugmyndum hefur verið þunglega tekið af þeim sem telja að gjörnýta beri eyna í þágu skammtíma hagsmuna með hámarks umferð og takmarkalausu aðgengi fólks og ökutækja allt árið, án tillits til náttúrulegra þolmarka.

Í ljósi þess að Dyrhólaey hefur frá upphafi verið í umsjá ábúenda á eignarjörðum eynnar – kom á óvart þegar út spurðist fyrir skömmu að Mýrdalshreppur hafi án nokkurs samráðs ráðið landvörð á Dyrhólaey. Ráðning landvarðar, sem er systursonur oddvita Mýrdalshrepps, gerðist með leynd og án auglýsingar, en með vitund og vilja Umhverfisstofnunar. Skömmu síðar gerði sveitarfélagið samning við Umhverfisstofnun um umsjón eynnar, sömuleiðis bak við tjöldin og án vitundar og vilja ábúenda á eignarjörðum Dyrhólaeyjar, sem telja hér gróflega á sér brotið. Blaðagreinum, þingræðum og undirskriftalistum er nú beitt til að reyna að knýja umhverfisráðherra til að horfa framhjá þessum réttarbrotum og staðfesta samninginn.

Framkoma af þessum toga er ekki til þess fallin að skapa frið um Dyrhólaey. Tilraunir Mýrdalshrepps, með vitund og vilja Umhverfisstofnunar, til að yfirtaka landvörslu og umsjón án samráðs við ábúendur og íbúa sem annast staðinn og mestu hafa fórnað til að bjarga lífríki eynnar frá eyðileggingu, benda til þess að annað en umhverfisvernd liggi hér að baki.

Fagna ber vilja umhverfisráðherra til að leggja fjármuni til landvörslu, göngustíga og merkinga í Dyrhólaey. Nokkrar milljónir króna til slíkra aðgerða munu þó ekki skipta sköpum um endurreisn fuglalífs í eynni því verði fjármunir notaðir til að réttlæta aukna umferð munu þeir hafa þveröfug áhrif. Koma verður á öflugri stýringu umferðar inn á svæðið í samræmi við vistfræðileg þolmörk eynnar. Ríkir almannahagsmunir eru hér í húfi.

Auglýsing um friðlýsingu Dyrhólaeyjar kveður m.a. á um að bannað sé að skaða eða trufla dýralíf og að bændur haldi nytjum sínum á svæðinu. Verði þessir þættir fyrir tjóni er réttur almennings til aðgengis að óspilltri náttúru staðarins að sama skapi fyrir borð borinn. Ábúendur munu beita sér fyrir því að lífríki Dyrhólaeyjar verði endurreist. Það verður hvorki gert með yfirgangi né átroðslu, heldur á grundvelli siðlegrar stjórnsýslu og félagslegrar samvinnu landeigenda og yfirvalda.

Fréttatilkynning frá ábúendum á Vatnsskarðshólum og í Garðakoti.

Fyrri greinÓlíklegt að áætlanir standist
Næsta greinFólk varað við að fara nálægt eldstöðinni