FSu orðinn UNESCO skóli

Nemendur í áfanganum ERGÓ á síðustu haustönn, þar sem fjallað var um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni. Ljósmynd/FSu

Fjölbrautaskóli Suðurlands er orðinn UNESCO-skóli, sá sautjándi á Íslandi en af þeim eru tíu framhaldsskólar, einn leikskóli og sex grunnskólar.

FSu hefur verið með sérstaka áfanga í boði um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem allir nýnemar skólans verða að taka. Á haustönn var um að ræða áfanga sem snýr að félagslegu heimsmarkmiðunum og nú á vorönn er kenndur áfangi sem snýr að umhverfismálum.

Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla hélt fyrirlestur um heimsmarkmiðin fyrir nemendur skólans ásamt því að funda með stjórnendum og starfsfólki skólans um UNESCO-skóla. Í kjölfarið var ákveðið að sækja um UNESCO aðild.

UNESCO–skólar er eitt elsta skólanet í heimi, starfrækt frá árinu 1953. Skólarnir eru nú um 12.000 talsins og starfa í yfir 180 löndum um allan heim. UNESCO-skólar leggja áherslu á heimsmarkmiðin, starfsemi SÞ, alþjóðasamvinnu og frið og mannréttindi.

Fyrri greinSkólahald raskast í dag
Næsta greinRúta fauk útaf við Reynisfjall