FSu og ML stóðu sig vel í Boxinu

Úrslitakeppni Boxins, framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, fór fram um síðustu helgi en bæði Fjölbrautaskóli Suðurlands og Menntaskólinn að Laugarvatni áttu lið í úrslitunum.

Boxið felst í því að leysa fjölbreyttar þrautir sem reyna á verklega og bóklega þekkingu, hugvit og verklag þátttakenda. Liðin fara í gegnum þrautabraut með átta þrautum sem eru sérhannaðar af sérfræðingum fyrirtækja úr ólíkum greinum innan Samtaka iðnaðarins með aðstoð fræðimanna Háskólans í Reykjavík.

Alls tóku 21 lið frá 13 skólum þátt í forkeppni í október og kemst aðeins eitt lið áfram frá hverjum skóla í úrslit, hvar aðeins keppa bestu liðin frá átta skólum.

Lið ML endaði í fjórða sæti er verður að teljast frábær árangur þar sem skólinn var nú í fyrsta sinn með lið í úrslitakeppninni.

Þetta er í sjötta sinn sem keppnin er haldin og í fjórða skipti sem FSu tekur þátt og hefur í öll skiptin komist í úrslitin. Lið FSu fékk verðlaun frá bæði Verkís og Íslenskum aðalverktökum fyrir sérstaklega vel unnið verk og góðan liðsanda og samvinnu.

Liðsmenn ML voru Ívar Örn Sveinbjörnsson, Jón Oddur Ólafsson, Óttar Haraldsson, Ragnheiður Olga Jónsdóttir og Þorgerður Sól Ívarsdóttir, öll nemendur í 2. bekk.

Lið FSu skipuðu þau Aron Óli Lúðvíksson, Eydís Arna Birgisdóttir, Ísak Þór Björgvinsson, Sigurður Smári Davíðsson og Þórir Gauti Pálsson.

Menntaskólinn í Hamrahlíð sigraði keppnina, Kvennó hreppti annað sæti og Menntaskólinn í Reykjavík vermdi þriðja sætið.


Lið ML.