FSu mætir Versló í sjónvarpinu

Lið FSu (f.v.) Júlía, Ásrún og Bjarni Már. Ljósmynd/Stefán Hannesson

Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands er komið í átta liða úrslit í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, eftir dramatískan sigur á Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í Ríkisútvarpinu í kvöld.

Staðan eftir hraðaspurningarnar var 6-4, FSu í vil, og þau sunnlensku fóru á miklu skriði inn í bjölluspurningarnar og komust í 12-6. Þá svaraði FB þremur spurningum rétt í röð og jafnaði 12-12.

Loftið var þrungið spennu þegar lokaspurningin var borin upp en Sunnlendingarnir voru með allt á hreinu, náðu bjöllunni og réttu svari og tryggðu sér 14-12 sigur.

Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands skipa þau Ásrún Aldís Hreinsdóttir, Bjarni Már Stefánsson og Júlía Lis Svansdóttir. Þau munu mæta ríkjandi meisturum í Verslunarskóla Íslands í átta liða úrslitunum í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu þann 4. febrúar.

Fyrri greinÞrjú smit í leikmannahópi Íslands
Næsta greinÓtrúlega heppinn með fólkið í kringum mig