Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands vann glæsilegan sigur á liði Menntaskólans á Ísafirði í 2. umferð spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, í kvöld.

Liðin mættust á Rás 2 í kvöld og lauk viðureigninni með öruggum sigri FSu, 25-17. Lið FSu er því komið í 8-liða úrslit í sjónvarpinu, en dregið verður um mótherja þeirra á Rás 2 annað kvöld.

Lið Menntaskólans að Laugarvatni mætti Menntaskólanum á Akureyri sömuleiðis í kvöld og lauk þeirri viðureign með öruggum sigri MA, 23-15.

Lið FSu er skipað þeim Sólmundi Magnúsi Sigurðarsyni, Svavari Daðasyni og Guðnýju Von Jóhannesdóttur en í liði ML eru Ísold Egla Guðjónsdóttir, Sigríður Magnea Kjartansdóttir og Sindri Bernholt.