FSu í sextán liða úrslitin

Ljósmynd: RÚV/Helga Margrét Höskuldsdóttir

Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands er komið áfram í 16-liða úrslit spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, eftir öruggan sigur á Borgarholtsskóla í fyrstu umferðinni í kvöld.

FSu tók forystuna strax eftir hraðaspurningarnar og sigraði að lokum 26-8. Lið FSu skipa þau Elín Karlsdóttir, Ásrún Aldís Hreinsdóttir og Heimir Árni Erlendsson í Landeyjum.

Menntaskólinn að Laugarvatni mætti sterku liði Tækniskólans í lokaviðureign 1. umferðarinnar. ML-ingar börðust með kjafti og klóm framan af, en Tækniskólinn var sterkari á lokasprettinum og sigraði 32-16. Lið ML skipa þau Teitur Snær Vignisson, Þorbjörg Guðrún Kristófersdóttir og Magnús Skúli Kjartansson.

Í kvöld var dregið í 16-liða úrslitin og þar mun FSu mæta Menntaskólanum við Hamrahlíð næstkomandi miðvikudagskvöld.

Ljósmynd: RÚV/Helga Margrét Höskuldsdóttir
Fyrri greinHamarsmenn áfram taplausir
Næsta greinHafsteinn íþróttamaður Hveragerðis 2022