FSu í 3. sæti í Boxinu

Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands gerði góða ferð í Háskólann í Reykjavík um síðustu helgi þar sem liðið hreppti þriðja sætið í framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, Boxinu.

Í fyrsta sæti var lið Kvennaskólans og annað sætið vermdi lið Menntaskólans í Reykjavík. Keppnin var gríðarlega spennandi og ekki ljóst fyrr en í lokaþraut hver endanleg úrslit yrðu.

Lið FSu skipuðu þau Erlendur Ágúst Stefánsson, Gísli Þór Axelsson, Sölvi Snær Jökulsson, Bergþóra Rúnarsdóttir og Hrólfur Geir Björgvinsson.

Markmið keppninnar er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði og má segja að verið sé að etja kappi í hugvitssemi og verkviti. Í úrslitakeppninni fóru liðin í gegnum þrautabraut með sjö stöðvum og fengu hálftíma til að leysa hverja þraut. Þrautirnar voru settar saman af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna Háskólans í Reykjavík.

Við mat á lausnum réð meðal annars tími, gæði lausnar og frumleiki. Þrautirnar voru afar fjölbreyttar og reyndu á ólíka þætti. Mikil leynd hvíldi yfir því hverjar þrautirnar væru og sérstakir siðgæðisverðir fylgdu liðunum eftir á keppnisdaginn svo að enginn fengi upplýsingar um þær þrautir sem átti eftir að leysa.

Þetta var í þriðja skiptið sem Boxið var haldið og sendu níu skólar átján lið í keppnina. Þau tóku þátt í forkeppni þar sem átta efstu liðin komust áfram, en þau voru Menntaskólinn í Reykjavík, Verslunarskóli Íslands, Tækniskólinn, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Flensborgarskólinn, Kvennaskólinn og Menntaskólinn við Hamrahlíð.

Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema, en fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna í ár eru Ístak, Marel, Skema, Járnsmiðja Óðins, Promens, TM Software og Marorka.

Umsjón með hópnum hafði Ágústa Ragnarsdóttir, myndlistakennari.

Fyrri greinBangsar gleðja börnin
Næsta greinFSu sigraði Augnablik