FSu hlaut Gulleplið

Fjölbrautaskóli Suðurlands hlaut Gulleplið fyrir skólaárið 2012/2013 sem heilsueflandi framhaldsskóli. Þema ársins var geðrækt. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Gulleplið sem er árleg viðurkenning.

Afhendingin fór fram á málþingi um um lífsstíl framhaldsskólanema sem haldið var í Þjóðmenningarhúsinu 26. september sl. á vegum Embættis landlæknis í tengslum við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóla.

Samstarfsverkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli hófst árið 2009 og eru allir framhaldsskólar landsins þátttakendur að örfáum sérskólum undanskyldum.

Heilsueflandi framhaldsskóli fjallar um fjögur meginviðfangsefni: næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Lögð er áhersla á jákvætt forvarnargildi heilsueflingar fyrir ungt fólk og markmið skólanna mótast síðan af því viðhorfi að heilsueflandi umhverfi bæti líðan nemenda, stuðli að bættum námsárangri og dragi úr brottfalli.

Þetta er fjórða árið sem Gulleplið er afhent en áður hafa Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, Verzlunarskóli Íslands og Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi hlotið viðurkenninguna.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Ungir öldurhúsagestir
Næsta greinAllar rúður í bílnum brotnar