FSu flaug inn í undanúrslitin

Elín, Ásrún Aldís og Heimir Árni hress og kát eftir sigurinn í sjónvarpssal í kvöld. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands er komið í undanúrslit í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, eftir öruggan sigur á Flensborgarskólanum í sjónvarpskeppni kvöldsins.

Keppnin var æsispennandi lengst af, FSu leiddi eftir hraðaspurningarnar en í kjölfarið komst Flensborg yfir. Frábær lokasprettur tryggði FSu hins vegar öruggan 21-14 sigur.

Þetta er í fimmta skiptið sem lið FSu kemst í undanúrslitin í í 37 ára sögu keppninnar. Það gerðist síðast árið 2019 og þar áður árin 2010, 1999 og 1986. Árið 1986 fór FSu alla leið og sigraði í keppninni en það var í fyrsta skipti sem spurningakeppni framhaldsskólanna var haldin.

Eftir keppni kvöldsins var dregið í undanúrslitin og mun FSu mæta Verkmenntaskóla Austurlands þann 10. mars næstkomandi. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Menntaskólinn í Reykjavík og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ.

Lið FSu skipa þau Elín Karlsdóttir frá Eyrarbakka, Ásrún Aldís Hreinsdóttir frá Selfossi og Heimir Árni Erlendsson frá Skíðbakka III í Austur-Landeyjum.

Fyrri greinUngmennin lyfta sér upp töfluna
Næsta greinÞrettán sunnlensk mörk í þremur sigurleikjum