FSu áfram í Boxinu

Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands er komið í átta liða úrslit í hugvitskeppninni Boxinu, en undankeppnin fór fram nú í vikunni.

Alls tóku 29 lið þátt í undankeppninni en ásamt FSu komust áfram í átta liða úrslit lið frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Flensborg, Menntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum í Kópavogi, Menntaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Menntaskólanum við Sund.

Lið FSu skipa þau Anna Guðrún Þórðardóttir, Sverrir Heiðar Davíðsson, Guðmundur Bjarnason, Halldóra Íris Magnúsdóttir, og Þórir Gauti Pálsson. Umsjónarmaður hópsins er Ágústa Ragnarsdóttir, myndlistakennari.

Boxið er samvinnuverkefni HR, Samtaka iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Í lokakeppninni er um þrautabraut að ræða með nokkrar stöðvum og fara liðin á milli og leysa eina þraut á hverjum stað. Þrautirnar reyna á hugvit og verklag. Fyrirtæki úr ólíkum greinum iðnaðarins sjá um og útvega efni í þrautir sem lagðar verða fyrir liðin. Fræðimenn frá HR aðstoða fyrirtækin við að koma saman heppilegum þrautum. Einnig eru kennarar á staðnum meðan á keppninni stendur.

Markmiðið með keppninni er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði. Aðalkeppnin mun fara fram laugardaginn 31. október í Háskólanum í Reykjavík og geta allir komið og fylgst með.

Fyrri greinBein útsending: Landsfundur Vg á Selfossi
Næsta grein„Við rúlluðum þetta á forminu í lokin“