Frumdrög að nýrri ferju

Eimskip hefur látið frumhanna nýja ferju sem aðlöguð hefur verið að aðstæðum í Landeyjahöfn varðandi djúpristu og stjórnhæfni.

Eimskip hefur að beiðni Vegagerðarinnar leitað um allan heim að ferjum sem gætu hentað betur en Herjólfur til siglinga í Landeyjahöfn.

Skoðaðar voru margar ferjur en aðeins tvær af þeim komu til greina sem gætu verið nothæfar við þær aðstæður sem eru í Landeyjahöfn. Þessar ferjur eru ekki á lausu sem stendur en viðræður við eigendur þeirra halda áfram.

Í tilkynningu frá Eimskip segir að fyrirtækið hafi mikinn áhuga á því að taka þátt í þessu verkefni sem gengur út á að tryggja og bæta samgöngur á milli lands og Eyja.

Reynslan af siglingum með Herjólfi í Landeyjahöfn hefur sýnt að skipið er of djúprist, tekur á sig of mikinn vind og á í erfiðleikum með strauminn og ölduna og hefur því ekki nægilega góða stjórnhæfni við ákveðnar aðstæður. Auk þess taka nýjar reglur gildi árið 2015 sem Herjólfur uppfyllir ekki varðandi ferjusiglingar á hafsvæði B.

Ferjuhönnunin tekur mið af farþega- og bílafjölda og einnig mið af því að afgreiðsla skips í höfnum gangi hratt og vel fyrir sig. Auk þess er lögð áhersla á að ferjan sé hagkvæm í rekstri og umhverfisvæn. Ferjan getur flutt allt að 78 fólksbíla og 400 farþega í hverri ferð yfir veturinn, en allt að 475 farþega yfir sumarið.

Áætlaður kostnaður við smíði ferjunnar er tæplega 4 milljarðar króna og gert ráð fyrir því að hægt sé að fá ferjuna afhenta eftir 18-24 mánuði.

Eimskip er tilbúið að skoða nánar með Vegagerðinni að koma að fjármögnun og byggingu nýrrar ferju og taka þannig þátt í að leysa samgöngumál milli lands og Eyja á farsælan hátt til langs tíma.