Það bar til tíðinda í bjartviðrinu í nótt að það kólnaði niður fyrir frostmark á Þingvöllum og eins á Sandskeiði.
Frostið var -1,3°C á Þingvöllum á fimmta tímanum í morgun.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, vekur athygli á þessu á veðurvefnum Bliku. Að sögn Einars varð hann því 27 daga langur, kaflinn yfir mitt sumarið þar sem hvergi varð vart við næturfrost. Síðast var næturfrost þann 13. júlí þegar veðurstöðin í Þykkvabæ fór lægst -0,1°C.
Sumarið 2021 stóð frostlausi kaflinn á landinu frá 1. júlí til 6. september, eða í 67 daga.
