Fróðleg og skemmtileg ungmennaráðstefna

Fyrir skömmu var ungmennaráðstefnan „Ungt fólk og lýðræði“ haldin á Egilstöðum. Um 65 ungmenni og starfsmenn víðs vegar að af landinu sóttu ráðstefnuna og voru þar á meðal þrír fulltrúar úr Ungmennaráði Rangárþingi eystra.

Það voru þau Fanney Úlfarsdóttir, Jón Sigurðsson og Sigurður Borgar Ólafsson.

Þetta var í fjórða sinn sem ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði er haldin og var þemað að þessu sinni ungt fólk og skipulag. Á ráðstefnunni voru haldnir ýmsir fyrirlestrar og í framhaldi af þeim unnið í vinnustofum en niðurstöður þeirra voru kynntar í lok ráðstefnunnar.

Í ályktun ráðstefnunnar er skorað á íslensk stjórnvöld, jafnt ríki sem sveitarfélög að leita meira til ungmenna og taka tillit til þeirra skoðana á málefnum samfélagsins, einkum þau sem varða ungmennin sjálf. Bestu málsvarar ungmenna séu ungmennin sjálf.

Fulltrúar Rangárþings eystra voru sammála um að ráðstefnan hafi verið mjög fróðleg og skemmtileg. „Þar lærðum við heilmikið um réttindi barna og ungmenna í samfélaginu og mikilvægi þess að raddir okkar fái að heyrast. Við teljum að reynsla okkar af ráðstefnunni geti nýst heilmikið í áframhaldandi vinnu í ungmennaráði Rangárþings eystra,“ segir Fanney í pistli á heimasíðu Rangárþings eystra.

Fyrri greinKostnaður við vetrarþjónustu vel undir áætlun
Næsta greinEinstök teikning eftir Kjarval fannst í Eiríkssafni