Frjó umræða á málþingi Upplits

Góð mæting og frjó umræða var á málþingi Upplits um samstarf og menningarstefnu í uppsveitum Árnessýslu sem fram fór á Hótel Heklu sl. laugardag.

Yfirskrift málþingsins var „Skiptir menning máli?“. Sérstakur gestur málþingsins var Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi Austurlands, sem sagði frá öflugu menningarlífi á Austurlandi, menningarmiðstöðvum, hátíðum og samstarfi. Erindi Signýjar var í senn upplýsandi og hvetjandi og mun án efa verða Uppliti gott veganesti til áframhaldandi góðra verka og enn frekari samræðu og samvinnu þvert á girðingar sveitarfélaga. Meðal þess sem Signý ræddi var nauðsyn aðgerðamiðaðrar stefnu í menningarmálum, ekki væri nóg að setja háleit og almennt orðuð markmið sem síðan væri erfitt að uppfylla, betra væri að setja raunhæf og mælanleg markmið.

Jákvæður vilji til samstarfs og upplýsingamiðlunar var rauður þráður í máli allra þeirra sem tjáðu sig í pallborðsumræðum á málþinginu. Ljóst er að margt gott er nú þegar í gangi á sviði menningarmála um allar sveitir, en stundum skortir á að nágrannarnir frétti af því.

Meðal hugmynda sem varpað var fram var að nágrannasveitarfélögin hefðu samráð um tímasetningu og kynningu á opnum dögum, þannig að í stað þess að vera í samkeppni um gesti og athygli yrðu viðburðirnir settir upp eins og einskonar rúntur um uppsveitirnar.

Að loknu málþingi fór aðalfundur Upplits fram og eftir hann er stjórn félagsins skipuð þeim Ann-Helen Odberg, Eyþóri Brynjólfssyni, Kristveigu Halldórsdóttur, Margréti Sveinbjörnsdóttur og Skúla Sæland. Í varastjórn eru Anna Kristjana Ásmundsdóttir og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir.

Í fundarlok var svo opnaður nýr vefur Upplits, á slóðinni www.upplit.is.