Frístundastyrkir í Árborg lægri en á höfuðborgarsvæðinu

Knattspyrnudeild Selfoss fær rúmlega 3,6 milljón króna styrk. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Sveitarfélagið Árborg er í miðjum hópi þegar kemur að upphæðum frístundastyrkja árið 2020 í sextán stærstu sveitarfélögum landsins. Hæstu styrkirnir eru í Hafnarfirði, 54.000 krónur á ári.

Frístundastyrkurinn er 35.000 krónur á barn í Árborg og er hægt að nota hann til þess að niðurgreiða íþrótta- og tómstundastarf, sem og tónlistarnám, svo eitthvað sé nefnt.

Fimm sveitarfélög, öll á höfuðborgarsvæðinu, styrkja hvert barn um 50.000 krónur á ári og þar á eftir kemur Akureyri með 40.000 krónur.

Upphæðin er sú sama í Árborg, Vestmannaeyjum, Reykjanesbæ og á Akranesi, en í síðastnefnda sveitarfélaginu hækkar styrkurinn við hvert barn, þannig að þriðja barn fær rúmlega 44.000 króna styrk.

Flest sveitarfélög styrkja börn frá 5 eða 6 ára til 18 ára aldurs, en í Árborg er styrkurinn fyrir 5-17 ára. Vestmannaeyjar skera sig úr þarna með lengsta aldursbilið, 2-18 ára.

Á Ísafirði og í Fjarðarbyggð er ekki boðið upp á neina frístundastyrki.

Alþýðusamband Íslands gerði þessa úttekt og nær hún eingöngu til frístundastyrkja sem foreldrar geta ráðstafað til að niðurgreiða tómstundir barna. Ekki er tekið tillit til annars konar stuðnings við tómstundastarf barna í formi lægra verðs á námskeiðum, ókeypis aksturs eða akstursstyrkja til foreldra sem keyra börn sín langan veg í tómstundir.

Mynd/ASÍ
Fyrri grein„Áætlum að selja um 12 þúsund bollur“
Næsta greinSelfyssingar sterkir í lokin