Frístundahús ekki dæmd til niðurrifs

Hæstiréttur segir að eigendur tveggja frístundahúsa í Kiðjabergi í Grímsnesi þurfi ekki að rífa húsin eins og einn nágranni þeirra krafðist

Húsin standa á landi Meistarafélags húsasmiða í Kiðjabergi. Eigendur þeirra fengu samþykkt byggingarleyfi hjá sveitarfélaginu í október 2005 og í febrúar 2006. Þeir hófust handa við smíði húsanna en sumarið 2006 kærðu eigendur eldra sumarhúss í næsta nágrenni framkvæmdina. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála komst að því að ekki hafði verið staðið rétt að breyttu aðalskipulagi sem byggingarleyfin byggðu á og felldi þau út gildi og lét stöðva framkvæmdir. Ný byggingarleyfi voru síðar gefin út samkvæmt aðalskipulagi sem sveitarstjórnin samþykkti. Þau leyfi voru síðan felld úr gildi sumar­ið 2007 en þá voru húsin næstum fullbyggð.

Samkvæmt lögum á að fjarlægja mannvirki sem reist eru án stuðnings í skipulagi. Hæstiréttur segir hins vegar ekki annað séð en að húsasmiðirnir sem reistu sér húsin hafi verið í góðri trú um gildi byggingarleyfa sinna.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.