Frisbígolfvöllur í bígerð á Flúðum

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hefur samþykkt að setja upp níu holu frisbígolfvöll á Flúðum á svæði neðan við félagsheimilið og í hluta af bæjargarðinum.

Kostnaður við verkefnið er áætlaður 1,4 milljónir króna en fyrir síðasta fundi sveitarstjórnar lá tilboð um uppsetningu á vellinum frá Frisbígolfbúðinni.

Frisbígolf nýtur sívaxandi vinsælda en núna eru tveir vellir á höfuðborgarsvæðinu og þrír vellir til viðbótar verða settir upp þar á þessu ári. Tveir frisbígolfvellir eru þegar á Suðurlandi, á Úlfljótsvatni og í Miðhúsaskógi.

Frisbígolf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf en í stað golfkylfa og -kúlu nota leikmenn frisbídiska.